news

Ekki er allt gull sem glóir

06 Nóv 2020

Í lok október fórum við út og ætluðum í göngutúr um bæinn. Sá göngutúr varð sögulega stuttur þar sem við komumst ekki yfir götuna, börnin voru svo heilluð af því sem þau sáu á lóðinni við leikskólann. Við breyttum um stefnu, ég (Kristín) sótti box inn á leikskólann og leyfði þeim að týna upp í boxið allar skrúfurnar, afklippur af klæðningunni og það sem fyrir augum bar.

Hver einasti hlutur sem þau týndu upp fékk viðbrögð á við gullfund og þeim fannst ótrúlega merkilegt hvað það var mikið að finna og ég þurfti að draga þau inn að lokum.

Því miður voru afgangar af byggingarvinnunni ekki það eina sem fannst þar sem nikótínpokar, tyggjó og sígarettur var einnig að finna, en það fór í ruslið og við vorum öll sammála um að þetta væri mikill sóðaskapur eða OJJJJ eins og börnin orðuðu það pent.

Í síðustu viku settumst við niður saman, skoðuðum það sem við fundum og bjuggum okkur svo til listaverk úr því sem við fundum.

það var ýmislegt sem kom út úr hugmyndavinnunni, til að mynda Geimskip, Anna prinsessa í Arendel, Kóróna veiran og geimflaug.

Verkin fá að standa í einum glugganum á leikskólanum sem stendur í norður (n.t.t í þvottahúsglugganum) og er hægt að skoða þau betur þar ef áhugi er fyrir hendi.