Velkomin á Grundir

Grunir er deild fyrir 3-4 ára börn

Deildarstjóri er Þórunn Emma

Daglegt starf á Grundum:

Samverustundir eru alltaf klukkan níu að morgni. Í samverustundum er sungið, lesnar sögur, farið með þulur, farið í ýmsa eftirtektarleiki, spjallað um veður , liti, stafi og fleira. Í samverustundinni er einnig umsjónarmaður dagsins valinn.

Börnin skiptast á að vera umsjónarmenn. Umsjónarmaður dagsins fær að velja lög sem sungin eru í samverustund. Það er hlutverk umsjónarmannsins að tilkynna hvað sé í matinn og bjóða hinum börnunum að gjöra svo vel. Börnin eru mjög stolt af þessu hlutverki og með tímanum taka þau það mjög hátíðlega og sinna því iðulega af mikilli natni.

Á mánudögum fara öll börn í skipulagðar stundir í íþróttum fínhreyfingum og málörvun.

Í íþróttum eru kennararnir að sinna ýmsum leikjum og þrautum. Fylgst er með hreyfiþroska barnanna og börnin þjálfuð markvisst í því sem þau þarfnast æfingar við. Fylgst er með framförum og stöðu barnanna og þau takast á við hæfileg verkefni. Bara það að vera á tánum og fylgja fyrirmælum getur verið töluverð áskorun fyrir marga til að byrja með.

Í finhreyfingu eru börnin að fást við ýmis verkefni sem snýr að samhæfingu augna og handa. Að vinna með skriffæri, skæri, að perla og leira getur verið snúið og er þetta færni sem kemur smátt og smátt með þjálfun og þroska barnanna.

Í málörvun eru börnin að fást við ýmis verkefni sem snúa að íslensku máli, beygingar, fleirtölu, frásagnir, skammtímaminni, samtöl, hugtakanotkun, stafa- og hljóðaþekkingu og fleira. Við notumst mikið við námsefnið Lubbi finnur málbeinið sem mælt er með og notað af talmeinafræðingum.

Hópastarf er svo á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Í hópastarfi sinna börnin ýmsum verkefnum með kennurunum til skiptis. Hægt er að lesa um hvað fram fer í fataherberginu í hverri viku. Ásamt því sem áður er talið fer margvísleg vinna fram svo sem listsköpun, spil, frjáls leikur, göngutúrar, talnaleikir, vettvangsferðir og spjall. Í hópastarfi fer fram mikil vinna með félagsþroska þar sem börnin læra að taka tillit, hjálpa og sýna félögum sínum samkennd. Kurteisi og vinsemd skipa stóran þátt þar sem börnin læra á skapgerðir hvors annars bæði í leik og starfi. Reynt er að koma til móts við hvar hópurinn/einstaklingurinn er staddur hverju sinni.

Útivera er mjög mikilvæg, þar fer fram mikilvæg æfing í hreyfiþroska. Að hlaupa, hoppa og klifra þarfnast allt æfingar og er dagleg hreyfing nauðsynleg fyrir börn. Hugrekki og þor þjálfast einnig í útiveru þar sem börnin líta til þeirra sem hafa betri þroska en þau og reyna að fylgja þeim eftir í leiknum. Félagsþjálfunin er mikil þar sem börnin búa til ýmsar leikgerðir og þurfa að læra að taka tillit til annarra. Skiptast á og miðla málum. Náttúrufræði og eðlisfræði er einnig stór þáttur í útiverunni þar sem börnin læra í gegnum leikinn um veðrabrigði, gróður og smádýr og samspil ýmissa hluta svo sem sands, steina og vatns.

Í hádegismatnum æfum við okkur í að sitja kyrr og sýna borðfélögum kurteisi og hjálpsemi. Mikið er spjallað saman við matarborðið og því fer fram mikil málörvun við máltíðir. Börnin eru einnig hvött til réttrar notkunar með hníf og gaffli og þar fá fínhreyfingarnar mikla þjálfun þar sem erfitt er að skera og samhæfa notkun hnífs og gaffals í stað fingra.

Á föstudögum og alla daga síðdegis er svo boðið uppá val. Þar læra börnin að þekkja nafnið sitt frá öðrum nöfnum á deildinni. Þau læra að allir eru einhverntíman fyrstir og einhver verður alltaf að vera síðastur. Það er mikill félagsþroski falinn í því að standa með sinni ákvörðun en ef þau hins vegar vilja skipta er alltaf í boði að púsla og lesa.

Sullukarið er mikið notað á deildinni. Það er stórt kar sem börnin geta staðið í kringum og unnið með höndunum í því efni sem í karinu er hverju sinni. Mikið eðlisfræðinám fer fram þegar börnin vinna með grjón, sand eða vatn og geta sum þeirra staðið löngum stundum og gleymt sér við að handleika efniviðinn.

Ef einhverjar spurningar eða athugasemdir eru þá endilega verið í bandi við deildarstjóra.

Námskrá Grunda

Hér má lesa Námskrá Grunda

Hér eru fréttir frá Grund