Foreldraráð Glaðheima

Foreldraráð starfar með hagsmuni barnanna og foreldra þeirra að leiðarljósi og fylgist með því að hlúð sé að velferð og réttindum barnanna í leikskólastarfinu. Foreldraráð fjallar um og veitir umsögn um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans og skulu stjórnendur leikskólans bera allar meiriháttar ákvarðanir um skólastarfið undir ráðið. Foreldraráð fylgist enn fremur með því að skólanámskrá og aðrar áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar. Foreldraráðið fjallar um ábendingar frá foreldrum og öðrum forsjáraðilum um starfsemi leikskólans og aðbúnað barnanna og getur komið þeim á framfæri við leikskólastjóra eða bæjaryfirvöld.

Fulltrúar foreldraráð 2022-2023

Magnús Ingi Jónsson Formaður, situr fyrir hönd foreldra í Fræðslumála- og æksulýðsráði

Bjarnveig Sigurborg Jakobsdóttir, situr fyrir hönd foreldra í gæðateymi leikskólans
Inga Rós Georgsdóttir

Harpa Sjöfn Friðfinnsdóttir

Auk þess situr leikskólastjóri alla fundi foreldraráðs.


Handbók Foreldraráða í leikskólum.

Heimili og skóli gefur út handbók foreldraráða í leikskólum, þessi handbók inniheldur helstu upplýsingar um foreldrastarf og er stuðst við lög og starfsreglur foreldraráða frá Menntamálaráðuneytinu.

Starfsreglur foreldraráðs Glaðheima

1. gr.

Hlutverk.

Foreldraráð starfar með hagsmuni barnanna og foreldra þeirra að leiðarljósi og fylgist með því að hlúð sé að velferð og réttindum barnanna í leikskólastarfinu. Ráðið fjallar um og veitir umsögn til leikskólans og fræðslumála- og æskulýðsráðs Bolungarvíkur um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Það fylgist enn fremur með því að skólanámskrá og aðrar áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar. Bera skal allar meiri háttar ákvarðanir um skólastarfið undir foreldraráð sem veitir umsögn um þær.

Foreldraráðið fjallar um ábendingar frá foreldrum og öðrum forsjáraðilum um starfsemi leikskólans og aðbúnað barnanna og getur komið þeim á framfæri við leikskólastjóra eða bæjaryfirvöld.

2. gr.

Starfstímabil og kosning.

Starfstímabil foreldraráðs er eitt ár, frá 1. október til 30. september og fer kosning í það fram síðari hluta septembermánaðar á hverju ári. Í ráðinu eru þrír fulltrúar og einn til vara. Leitast skal við að í ráðinu séu foreldrar barna á mismunandi aldursstigum, þannig að a.m.k. einn fulltrúi haldi áfram næsta ár á eftir til að tryggja samfellu í starfi ráðsins.

Kosning í ráðið fer fram á aðalfundi foreldrafélagsins a.m.k. einni viku áður en kjörtímabilið rennur út. Hafi ekki verið boðað til fundar til að kjósa nýtt foreldraráð í septemberlok getur leikskólastjóri boðað til almenns foreldrafundar þar sem kosning í ráðið fer fram. Foreldraráð óskar eftir nýjum framboðum. Skal það gert með tölvupóstsendingu til allra foreldra og einnig með auglýsingu á skilaboðatöflum við allar deildar. Í skilaboðunum skal vera leiðbeining um hvert skuli tilkynna framboð. Allir foreldrar leikskólabarna eiga atkvæðisrétt.

3. gr.

Starfshættir foreldraráðs.

Á fyrsta fundi foreldraráðs velja fulltrúarnir sér formann og skipta að öðru leyti með sér verkum. Formaður eða leikskólastjóri boða til funda í foreldraráðinu. Foreldraráð skal funda a.m.k tvisvar yfir árið. Fyrsti fundur skal handinn fyrstu vikuna í október. Þar skal kjósa formann og ritara, ákveða skal næsta fundartíma og fara yfir starfsreglur ráðsins. Skólanámskrá og ársáætlun leikskólans kynnt.

Halda skal fundargerðir um það sem fram fer á fundum foreldraráðsins. Fundargerðirnar eru birtar á vef leikskólans ásamt umsögnum og ályktunum ráðsins.

Foreldraráð getur staðið fyrir almennum fundum meðal foreldra barnanna og annarra forsjáraðila um málefni sem varða starfið á leikskólanum. Foreldraráðið starfar í náinni samvinnu við leikskólastjóra.

Fulltrúar í foreldraráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeim er trúað fyrir út af setu þeirra í foreldraráði og varða fjölskylduaðstæður einstakra barna, hegðun þeirra og heilsufar eða önnur viðkvæm atriði sem eðlilegt er að fari leynt.

Bolungarvík 11.11.10