Stefna og uppeldislegar áherslur

Hugmyndafræði leikskólans byggist meðal annars á lífsviðhorfi, gildismati, þekkingu og reynslu starfsmanna, ásamt kenningum sem settar hafa verið fram af fræðimönnum og rannsóknum sem gerðar hafa verið á leikskólastarfi. Unnið er eftir tímalínu sem er leiðarvísir kennara og starfsfólks. Tímalínan er sett upp í þemu með áherslu og markmiði að vinna samkvæmt grunnþáttum menntunnar.
Hægt er að skoða tímalínuna hér: Tímalína janúar til júní 2024

Leikskólinn leggur áherslu á að barnið sýni virðingu, beri ábyrgð og sé traust.

Stefna Glaðheima er að barnið læri í gegnum leikinn og verði virkt og skapandi í námi sínu og starfi. Barnið er hvatt til að rannsaka og læra af eigin reynslu. Í gegnum daglegt starf öðlast barnið lífsleikni þar sem leikurinn er aðal námstæki leikskólans

Einkunnarorð

Ég og þú og allir saman, treystum virðum - þá er gaman

Leikskólinn vinnur að hluta til eftir námsefninu Lífsleikni í leikskóla og er gefið út af þrem leikskólum á Akureyri: Síðusel, Krógaból og Sunnuból. Lífsleikni er kennd í gegnum dygðir og byggist á alhliða þroska barns, færni þess til samskipta, rökrænnar tjáningar og til að bera virðingu fyrir umhverfi sínu.

Markmiðið er að barnið sýni góða hegðun af því að: “Hugurinn segir mér það”

Deildar skólans vinna sérstaklega með 2-3 dygðir allt skólaárið.

Gil vinnur markvisst með vinsemd, virðingu og samkennd

Grundir vinnur markvisst með hjálpsemi og áreiðanleika

Grásteinn vinnur markvisst með þolinmæði og hugrekki