Útinám í Glaðheimum

Það er hollt og gott fyrir börn að fá að vera í nánum tengslum við náttúruna og fá frískt loft og góða hreyfingu.

Með því að vera úti í náttúrinni læra börn um aðrar lífverur, hvaðan maturinn kemur og að lífsafkoma okkar sé háð náttúrunni. Það er mikilvægt að börn fái og upplifi tengsl við náttúruna og læri að virða hana því að í framtíðinni hlýtur það að hafa áhrif á hvernig ákvarðanir þau taka um nýtingu hennar (Kristín Norðdahl, 2005).

Leiðir leikskólans varðandi útinám

Leikskólinn Glaðheimar hefur sett sér það markmið að efla útiveru barnanna með því að bjóða uppá nám utan leikskólans.

Meginmarkmið útináms

  • Að efla alhliða þroska barnanna.
  • Að barnið kynnist nær umhverfi sínu og leikskólans.
  • Að barnið kynnist náttúrunni og læri að bera virðingu fyrir henni.
  • Að efla þol og úthald hjá barninu.

Undirmarkmið

  • Að vinna með öll námsvið Aðalnámskrár leikskóla.
  • Að börnin læri umferðarreglurnar.
  • Að börnin rannsaki og skoði náttúruna.
  • Að börnin njóti og nýti náttúruna allt árið um kring sem leiksvæði og efnivið til skapandi starfs og leikja.
  • Að börnin efli með sér hvöt til að spyrja og rannsaka og þroska þannig með sér skapandi hugsun.

Skipulag ferða og verkefna

Yngri nemendur fara í styttri vettvangsferðir um bæinn og stuttar lautarferðir. Ferðirnar eru skipulagðar með það markmið að efla og auka úthald barnanna og að verkefnin tengist beint við það sem þau eru að fást við í öðru starfi leikskólans. Útinámið og ferðirnar verða svo lengir og viðameiri með auknum aldri og þroska nemenda. Eldri nemendur fara t.d. í Bernódusarlund (skógræktina), fjöruna og lengri vettvangs- og lautarferðir um bæinn. Hluti af útinámstímanum fer í frjálsan leik og hluti fer í fyrir fram ákveðna vinnu/leiki. Suma daga er eldaður hádegismatur út. Allt er þetta þáttur í námsferli barnsins.